Ég get auðvitað bara talað fyrir mig, í mínu tilfelli var þetta eiginlega það versta sem gat gerst. Ég er örvhent, prjóna alla daga og man ekki eftir mér öðru vísi en með prjóna í hönd alla vega hluta úr degi. Nú eru komnar 3 vikur þar sem ég hef ekkert prjónað, reyndar hef ég reynt tvisvar sinnum að prófa en það gengur ekki svo ég bíð spent eftir að losan við gipsið….bara ein vika í viðbót 🙂
Ég get aftur á móti pikkað á tölvuna og hef nýtt tímann í ýmislegt svo sem bókhaldsvinnu og svo það sem ég trassa mest af öllu….skrifa prjónauppskriftir. Mér þykir nefnilega afspyrnu skemmtilegt að prjóna og dettur margt í hug en þykir ekki eins gaman að skrifa uppskriftirnar eða réttara sagt gef mér ekki tíma í það því prjónarnir eru jú mun skemmtilegri.
Nýjar uppskriftir sem hafa litið dagsins ljós í þessum mánuði eru:
Settið varð til þegar Ellý systir átti von á sínu 1. barnabarni. Eins og venjulega þegar ný barnabörn koma í fjölskylduna þá hef ég verið svo heppin að ég hef fengið að prjóna heimferðarsettið á væntanlegan fjölskydumeðlim. Undanfarin ár hef ég sett saman uppskrift af setti fyrir hvert barn.
Kjói er fallegt sett, smá snúningur á mynstri sem er í raun einfalt að prjóna. Peysa, húfa og buxur saman í setti prjónað úr Drops Baby Merino á prjóna nr 2,5 og 3. Uppskrift finnur þú hérna
Almar Elí fór heim í sægrænu og bláu setti, prjónað úr handlituðu garni sem ég átti á lager heima.
Þessa peysu og buxur prjónaði ég í framhaldi af Krókur heilgalla.árið 2022. Peysan átti að vera með öðru sniði en gekk einhvern veginn ekki upp. Uppskriftin er loks komin á blað og er settið prjónað úr Drops Soft Tweed. Uppskrift finnur þú hérna
Þessi peysa hefur verið í kollinum á mér í meira en tvö ár en mig vantaði alltaf laskann. Svona einföld og stílhrein peysa þótti mér vanta smá snúnigna á laskann. Loksins kom hann til mín og Saga var prjónuð og uppskriftin kláruð. Peysan er prjónuð úr dásamlega Drops Cotton Merino. Þessi er kjörin fyrir allar skottur við t.d. leggings. Uppskrift finnur þú hérna
Þessa peysu prjónaði ég fyrir tveimur árum þegar við tókum inn garnið Leonora.frá Permin. Dásamlegt garn sem ég bara varð að prófa, Þrýstingur á uppskrift kom til mín þegar ég skrapp á prjónahelgi hjá Knit Hvammstangi á Hvammstanga s.l. haust. Nema konurnar vildu dömupeysu. Uppskrift finnur þú hérna
Ég fór heim og prjónaði þessa peysu á mig og lauk við hana í apríl s.l. úr Leonora Uppskriftin er nú loks tilbúin og komin í sölu.
Fura barna- og dömupeysan er prjónuð ofan frá og niður, með axlarstykki og gatamynstur á framstykki. Ég er alsæl með þessa peysu, létt og hlý peysa. Uppskrift finnur þú hérna
Væntanlegar uppskriftir eru:
Bylgja ungbarna- og barnapeysur.
Þessar uppskriftir voru nánast klárar í janúar 2023. Garnið sem ég notaði upphaflega hætti í framleiðslu og þess vegna komu þær aldrei út. Þegar við tókum inn garnið Lillemor frá Permin ákvað ég að endurgera þessar peysur og prjóna nýjar. Mjög fallegar peysur þó ég segi sjálf frá.
Kjói barnateppi
Prjónað úr Drops Merino Extra Fine
Vera dömupeysa
Ég er alveg að verða búin með þessa. Garnið Vera er flott garn blanda af bómull og Alpaca ull á prjóna nr 4-5. Von er á 7 nýjum litum í september svo ætli ég bíði ekki eftir þeirri sendingu áður en ég gef þess uppskrift út. Mæli með þessu garni og ég er mjög ánægð með þetta mynstur.
Læt þetta duga í bil og tel niður í daginn sem gipsið verður tekið og krosslegg fingur að prjónaskapurinn geti hafist þann dag á ný.
Prjónakveðja,
Guðrún María