Vefur á víðavangi

Ég var í IKEA í gær að versla. Ég elska IKEA. Þar rakst ég á þennan stóra vefstól í metravörudeildinni. Við hliðin á var fata með efnisræmum og stendur öllum til boða að taka þátt í að gera þennan vef. Mér fannst þetta snilld og hefði vel verið til í að vefa smá. En ég var með tvö 1ns árs kríli með mér sem voru ekki alveg jafn spennt fyrir þessu og ég.

Þetta fékk mig samt til að hugsa um að vefa. Mér finnst rosalega gaman að vefa og er svaka spennt fyrir því að vefa eitthvað um þessar mundir. Eina vandamálið við vefnað er að mér hefur ekki enn tekist að finna verkefni sem er mjög nytsamlegt. En ég er að vinna í því.

Image

Um daginn vorum við Móri svo úti að leika á leikskóla hérna í hverfinu og rákumst þá á þetta vef-graff sem krakkarnir hafa verið að gera. Mér finnst þetta alveg hreint yndislegt og krúttað að vita að litlu krakkarnir hafa verið að dunda sér við þetta.

Image

Krakkar í Vesturbæjarskóla hafa líka vef-graffað á girðingu hjá sér í skólanum. Það fær mig alltaf til að brosa þegar ég keyri þarna fram hjá. Og í hvert skipti þá ætla ég að stoppa á leiðinni til baka og taka mynd af því – en í hvert skipti þá gleymi ég því.

Ef þið hafið áhuga á vefnaði þá er ég búin að safna saman fullt af hugmyndum að verkefnum fyrir krakka – og fullorðna – á Pinterest. Kíkið við.

Elín c”,)

Skildu eftir svar