Ég prjónaði mikið á börnin mín þegar þau voru lítil og auðvitað tek ég upp þráðin núna þegar ömmugullin mín eru komin. Aþena 18 mánaða og Móri 17 mánaða eru litlu krílin mín. Ég á dóttur sem saumar mikið út og þegar ég sá þessa hnappa hjá henni bara varð ég að finna peysu sem passaði við hnappana og auðvitað að prjóna á Aþenu og Móra 🙂
Ég er aftur á móti þannig gerð að mér leiðist alveg gífurlega að prjóna bara slétt prjón og veit ekkert skemmtilegra en að prjóna kaðla, gataprjón, flókin munstur nú og svo auðvitað tvöfalt prjón. En aftur á móti vildi ég leyfa þessum hnöppum að njóta sín svo einlitar peysur urðu fyrir valinu og fann ég þessar fallegu peysur í Dale baby blaði nr, 247 sem svona smellpössuðu í verkefnið.
Svo er það þannig að ef ég er með mjög flókin prjónaverkefni get ég ekki tekið það með mér í heimsóknir eða á kaffihús svo þá er alltaf gott að vera með varaverkefni til þess. Ég rakst á þessa sætu kórónuhúfur á finnsku bloggi um daginn og þótti tilvalið að prjóna á prinsessuna mína en þegar ég var búin með hana fór ég strax að hugsa af hverju ég væri að einskorða hana við stelpuna af hverju prinsinn minn mætti ekki ganga líka með svona húfu? Svo auðvitað fengu bæði sína húfu 🙂
Ég fann ekki garnið sem hún gefur upp í uppskriftinni svo ég notaði Mandarin Petit í kórónuna og Cottonsoft DK sem ég keypti í Rúmfatalagernum.
Húfan er ekki hönnuð með eyrnaskjólum og böndum en það var útilokað að krílín mín létu húfuna í friði á höfðinu þannig svo ég bætti við eyranskjólum og ganga þau nú glöð og brosmild með húfurnar sínar.
Skemmtilegar húfur og klæðilegar svo ég fékk leyfi höfundar til þess að þýða uppskriftina á íslensku og deila með ykkur. Svo hér er uppskriftin, njótið vel.
Mattías Móri