Ég hef voða gaman af því að finna gamalt hekl í Góða Hirðinum eða Rauða Krossinum. Ef ég sé eitthvað sem mér líst virkilega vel á þá kaupi ég það. Ég á nokkur stykki inní skáp hjá mér og er planið að gera eitthvað skemmtilegt úr þeim. Svona með tímanum.
Ég fann einn dúk ekki fyrir svo löngu í Góða Hirðinum. Hann var nokkuð illa farinn en mynstrið heillaði mig alveg. Ég heklaði eftir honum tvo dúka en breytti nokkrum smáatriðum svo þeir tækust betur upp hjá mér.
Eins og gengur og gerist með heklaða dúka þá urði þeir ekki alveg beinir hjá mér. Ég hef stífað dúka áður með kartöflumjöli og það var alveg prýðilegt. En mig langaði að prufa hvort það væri ekki nóg að nota bara kalt vatn. Og viti menn það dugði. Dúkarnir eru mýkri en þegar notað er kartöflumjöl og halda líklegast ekki lögun sinni jafn lengi og ef ég hefði notað kartöflumjöl.
Ég er mjög svo ánægð með litlu dúkana mína. Það er eitthvað við þetta mynstur sem mér finnst bara alveg hreint æðsilegt. Garnið er heldur ekki af verri endanum. Er voða skotin í svona gylltu garni um þessar mundir.
Hér má svo sjá dúkana mína og upprunalega dúkinn sem ég fann í Góða.
Ég notaði nál nr. 2 og garnið heitir Rosanna frá Lang Yarns keypt í Garnbúðinni Gauju á mjög góðu verði.
Hekl-kveðjur
Elín c”,)