Færeysk sjöl

060 copy

Að prjóna sjal þykir mér skemmtileg iðja, það er þó ekki langt síðan ég byrjaði að prjóna sjöl eins og ég hef áður bloggað um. Bókin Føroysk Bindingarmynstur, Bundnaturriklæðið hefur móðir mín átt síðan í byrjun 9. áratugarins og ég stundum skoðað hana og langað að prjóna færeyskt sjal. Bókin inniheldur ekki mikið af leiðbeiningum en ég vissi þó að færeysk sjöl hafa þá sérstöðu fram yfir önnur sjöl að þau sitja svo vel á öxlunum. Þetta þykir mér mikill kostur og er hægt að nota sjölin í stað gollu eins og Elín dóttir mín sagði þegar hún prófaði sjölin sem ég prjónaði á síðustu 3 vikum.

006 copy

Færeysk sjöl eru:

  • Alltaf prjónuð með garðaprjóni
  • Skiptast í 2 vængi og miðjustykki. Miðjustykkið er misbreytt en passa verður að hafa það ekki of mjótt eða ekki færri en 25 lykkur og mest fer það í 35 lykkjur
  • Sjalið er prjónað neðan frá og upp
  • Kögur var og er sett neðst á sjalið en í dag er einnig farið að hekla hringinn í kringum sjalið og sleppa kögri
  • Miðlungssjal inniheldur 300-350 lykkjur en stórt sjal 400-450 lykkjur í upphafi
  • Vængirnir mynda þríhyrning sem gerir það að verkum að sjalið situr vel en hafa sum sjöl einnig úrtökur á öxlunum
  • Lögun þeirra gerir það að verkum að þau sitja sem fastast á öxlum notanda þrátt fyrir að hann sé á ferðinni, óþarfi að festa það með nælu eða loka að framan á annan hátt

Færeyskt sjal1 merkt minnkuð

Í sumar fór ég til Færeyja og notaði tækifærið og prjónaði eitt sjal um leið og ég ræddi við mér fróðari konur um færeysku sjölin. Það sjal prjónaði ég úr Navia Uno á prjóna nr. 5,5

Það varð ekki aftur snúið ég elska þetta sjal og ákvað að hanna mína eigin uppskrift að sjali. Ég keypti garnið Snældan 2ja þráða í Færeyjum og prjónaði frumgerðina úr því. Ég ákvað að prjóna annað og hafa það aðeins stærra og lausara í sér þ.e. prjóna úr grófari prjónum.

050 copy

Litla Prjónabúðin selur garnið frá Snældunni hér á Íslandi og þangað dreif ég mig og keypti mér garn hjá Döggu. Snældan er dásamlegt ullargarn og stingur ekki. Gott að prjóna úr því og til í mörgum fallegum litum.

054 copy

Eftir að hafa prjónað þessi þrjú sjöl var ég eiginlega komin í ham og langaði að gera eitt enn. Verslunin Amma Mús var að opna á Grensásvegi og þar var nýtt garn Einrum á kynningarverði. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér garn (Einrum + 2) með það í huga að prjóna annað sjal. Skundaði heim og teiknaði upp nýtt munstur og hófst handa við að prjóna 🙂

025 copy

Öll sjölin er prjónuð slétt allar umferðir þ.e. garðaprjón en mismikið munstur á þeim. Sjalið Demantar er hannað með aukaúrtökum á öxlum en sjalið Blómaknúpar hefur eingöngu hinar hefðbundnu fjórar úrtökur í annarri hverri umferð.

035 copy

Þetta sjal er einstaklega fallegt og kjörið að prjóna á verðandi brúðir til að hafa við höndina á bruðkaupsdaginn

Hér sérðu sjölin útbreidd:

055 copy

Demantar, stærra sjal (breidd: 160 cm, sídd: 70 cm)

043 copy

Demantar, minna sjal (breidd: 145 cm, sídd: 62 cm)

030 copy

 Blómaknúpar (breidd: 174 cm, sídd: 88 cm)

Er ég ekki búin að vekja forvitni þína og heilla upp úr skónum með þessum sjölum? Uppskriftir af sjölunum getur þú keypt hérna

Prjónakveðja,
Guðrún María

 

 

 

 

Skildu eftir svar