…í sumarfríinu mínu. Nánar til tekið Svíþjóðar og Danmerkur. Við hjónin fórum með unglinginn og smábörnin að heimsækja ættingja. Þar sem þetta var fjölskyldufrí þá ákvað ég að setja handavinnuþráhyggjuna mína að mestu til hliðar og hafa fjölskylduna í forgangi.
Það þýddi að ég verslaði bara smá garn og heimsótti bara nokkrar búðir. OG það sem merkilegast er! Ég heklaði bara á kvöldin eftir að börnin voru sofnuð.
Svíþjóð:
Í Svíþjóð vorum við í Lundi. Ég verð að segja að mér finnst gamli bærinn í Lundi alveg hreint yndislegur. Öll þessi litlu hús og litagleðin gleðja mig afskaplega mikið. Ég hafði mjög gaman af því að rölta um og skoða umhverfið.
Það var í einum göngutúr sem ég rak augun í þessar hekluðu gardínur. Einfaldar en fallegar. Varð að stelast til að mynda þær.
Ég elska að fara í Góða Hirðinn og mátti því til að kíkja inn í tvær Second Hand búðir sem ég fann í Lundi. Önnur þeirra var í niðurgröfnu kjallara með steingólfum og var lofthæðin þar heilir 176 cm. Í báðum búðunum fann ég hekl og gramsaði auðvitað í gegnum það. Mér finnst fátt jafn skemmtilegt og að finna fallegt “gamalt” hekl.
Oft þegar ég finn reglulega fallegt hekl í svona búðum kaupi ég það. Ég varð heldur betur að velja og hafna í Svíþjóð en gat ekki stillt mig um að kaupa þennan fallega dúk. Planið er að strekkja aðeins úr honum og finna honum góðan stað heima.
Ég fór líka í eina garnbúð í Lundi. Tók engar myndir en keypti mér smá garn.
Danmörk:
Í Danmörku vorum við í Köben. Ég er alltaf jafn hrifin af Köben, mér líður svo vel þar. Mér finnst ég alltaf sjá eitthvað spennandi þegar ég er á röltinu þar um. Eins og til dæmis þetta fallega hús skreytt áttablaðarósum og meiru.
Og þetta garngraff.
Á rölti eftir Norrebrogade rak ég augun í second hand búð og skaust í hana. Þar var að finna marga góða gripi og helling af drasli. Niðrí í kjallaranum var þetta handavinnuhorn.
Það var fullt af hekli þarna. Bunki af tuskum/þvottapokum sem kostuðu 5 dkr. stykkið og margir löberar á 20 dkr. Ég keypti ekki neitt en hefði kannski betur gert það því ég er enn að hugsa um einn löberinn þarna.
Það var mikið af mjög fíngerðu hekli þarna. Þessi rauði dúkur var ekki mikið stærri en glasamotta.
Þessir servíettuhringir voru svo smáir að ég varð að taka mynd af þeim. Setti fingurbjörg á myndina til að sýna stærðina hlutfallslega.
Mér finnst þetta bara magnað!
Sofia frænka býr úti og fór með mig í smá garnleiðangur. Við náðum ekki nema einni garnbúð, Therese Garn á Vesterbrogade, en hún var sko heljarinnar upplifun. Mamma og Sofia hafa sagt mér frá þessari búð en sjón er sögu ríkari. Búðin er svo stútfull af garni að það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Um leið og ég steig út úr strætó blasti litadýrðin við fyrir utan búðina hjá henni.
Búðin er svo full af garni að það komast ekki nema tveir fyrir þar í einu. Það er svona lítil slóð um búðina sem þú getur gengið eftir innan um haugana af garni sem hægt er að gramsa í. Þessi búð er ekki bara með helling af garni heldur helling af karakter líka.
Þetta garn minnti mig á naggrísi. Fannst það svo fyndið að ég varð að mynda það.
Hit Ta-Too garnið er til í svo fallegum litum.
Í búðinni var fullt af tilboðum og auðvitað keypti ég mér 10 dokkur af bómullargarni hjá henni. 10 dokkur á 3000 kall er ekki svo slæmt.
Ísland:
Þegar heim var komið varð ég auðvitað að taka saman garnið sem ég keypti og fara yfir það. Verð að játa að ég var ekki sérlega skipulögð heldur keypti ég bara það sem mér fannst fallegt. Komst að því að mér finnst greinilega vatnsblár (aqua blue) fallegur litur því ég keypti þann lit í hverri verslunarferð. Bómullargarn er afskaplega vinsælt hjá mér um þessar mundir svo ég verslaði það bara.
Sofia frænka gaf mér nokkrar dokkur af garni úr safninu sínu.
Ég er sorglega ánægð með allt nýja garnið mitt og er sko byrjuð að hekla úr því.
Garnkveðjur
Elín