Þá er fyrsti mánuður ársins liðinn og ég búin með nokkur verkefni. Ég setti mér það markmið að prjóna 1 vettlingapar í hverjum mánuði þetta árið. Það er svo mikið til af fallegum vettlingamunstrum að maður fær nánast valkvíða 🙂
Í janúar ætla ég bara að prjóna úr garni sem ég á nú þegar og þar kem ég sko alls ekki að tómum kofanum 🙂
Byrjaði á þessari húfu strax á nýársdag þar sem hún þurfti að vera tilbúin 3. janúar. Fótboltahúfan prjónuð með tvöföldu prjóni og er gífurlega vinsæl hjá strákum og stelpum. Það er líka svo gaman að prjóna hana í litum hvers fótboltafélags fyrir sig. Þessi rauð og svört eins og t.d. Knattspyrnufélagið Víkingur er með í sínum búningi.
Garn: Dale Baby
Prjónar nr. 3,5
Síðan urðu þessir vettlingar fyrir valinu, sá þá á prjónasíðu á Facebook og uppskriftin er frí á Ravelry og langaði mig að hafa þá hvíta og sjálfmunstrandi garn með. Ég átti garn sem ég hafði keypt í Hagkaupm Baby ull frá Gjestal og notaði prjónar nr. 2,5. Aftur á móti varð ég ekkert sérstaklega ánægð með fyrsta vettlinginn og hef ekki enn prjónað hinn.
Svo sá ég þessa skemmtilegu uppskrift á síðu á Facebook sem Bitta Mikkelborg heldur úti. Hún gaf þessa uppskrift, sem heitir Myria í tilefni að því að 10.000 like voru komin á síðuna hennar. Það er leikur í gangi þegar þú prjónar þetta munstur þar sem þú kastar teningi og prjónar það munstur sem hefur sama númer og kemur upp á teningnum hverju sinni. Svo ef þú prjónar fleiri en 1 par af þessum vettlingum verða þau sennilega ekki í sömu röð munstrin, mér þykir þetta skemmtileg hugmynd hjá henni.
Garn: Arwetta Classic
Prjónar nr. 2,5
Hún Bitta er í miklu uppáhaldi hjá mér og þessa vettlinga gefur hún fría á Ravelry. Ég ákvað að prófa í fyrsta skipti að prjóna kaðla án hjálparprjóns/kaðlaprjóns og það var bara mjög þægilegt, var búin að mikla það svo fyrir mér. Uppskriftin gerir ráð fyrir Nepal eða Lima garni frá Drops og þar sem ég á nokkrar Nepal dokkur þá skellti ég í eitt par 🙂
Garn: Drops Nepal
Prjónar nr. 4
Þar sem ég hef verið í öðru verkefni á daginn og nánast bara prjónað á kvöldin í janúar valdi ég þessa peysu sem er fljótleg og þægilegt að prjóna yfir sjónvarpinu. Þetta munstur hefur verið gífurlega vinsælt í Færeyjum undanfarin ár. Þegar ég fór þangað sumarið 2012 voru í Þórshöfn sennilega um 70% kvennþjóðarinnar í svona peysum með alls konar útfærslum. Stjarnan er gamalt færeyskt munstur. Ég hef prjónað tvær heilar úr léttlopa fyrir frænkur mínar en prjónaði þessa á Maíu Sigrúnu í stærð 1 árs, engin uppskrift bara sniðið utan um stjörnumunstrið.
Garn: Navia Duo
Prjónar nr. 4
Maía mín er alltaf svo köld á höndunum og vantaði vettlinga til að sofa með sem hún gæti ekki rifið af sér. Svo amma prjónaði þessa eitt kvöldið úr afgangsgarni sem ég átti.
Þessi ágæta silkihúfa er búin að vera prjónuð og rakin upp aftur og aftur, ég bara náði ekki réttri stærð fyrir Maíu. Ýmist var hún alltof stór eða alltof lítil. Ótrúlegt þegar svona smáverkefni vefjast fyrir manni. Ég prjónaði hana í hring úr silkigarni sem Elín mín átti afgangs en hana langaði að eiga hjálmhúfu sem passaði strax á litlu prinsessuna sína.
Garn: Jaipur fino
Prjónar nr. 2,5
Ég er bara nokkuð sátt við útkomu janúarmánaðar og það sér ekki á garnbirgðum mínum að ég hafi tekið af þeim til að prjóna þessi verkefni. Ég er með langtímaverkefni á prjónunum líka, sófateppi fyrir Aþenu og Móra úr tvöföldu prjóni. Gott að hafa svona að grípa í þegar maður vill taka því rólega.
Prjónakveðja
– Guðrún