Bindifestivalur 2015

Við mæðgur fórum til Færeyja í apríl á Bindifestival eða Prjónahátíð í Fuglafirði. Amma er færeysk svo mamma þekkir vel til á eyjunum og við fengum inn hjá ættingjum í Fuglafirði. Það eru 28 ár síðan ég fór síðast til Færeyja svo mest allt var nýtt fyrir mér og ég hafði NÓG að skoða. Okkur langaði að skrifa bloggfærslu og segja frá öllum þeim undrum sem Færeyjar búa yfir en það flæktist svo fyrir okkur að það varð ekkert úr því bloggi.

Því ákváðum við að hafa þetta bara einfalt og deila gleðinni með myndum – og fullt af þeim. Ef spurningar vakna hjá lesendum bloggsins þá er bara að varpa þeim fram.

Við mæðgur tókum að sjálfsögðu rúnt um og heimsóttum garnverslanir. Hjá Vímu er flott verslun í Klaksvík sem selur meðal annars íslenska Lopann. Við þreifuðum á færeyska garninu Navia, Snældu og Sirri. Að sjálfsögðu versluðum við garn líka.

 

Á Bindifestivalnum fórum við á námskeið þar sem mamma bætti við sig þekkingu á færeyskum sjölum og stúderaði hvernig væri hægt að sækja innblástur úr náttúrunni til að teikna upp munstur. Ég fór út fyrir þægindarammann minn og fór á námskeið í að jurtalita ull og fékk kennslu um góða leið við að blanda saman munstrum og litum í prjóni. Einnig sátum við fyrirlestur um framtíð færeysku ullarinnar sem var að sjálfsögðu á færeysku.

Mamma var svo með námskeið í tvöföldu prjóni sem vakti mikla lukku.

Fuglafjörður iðaði af lífi á meðan hátíðin stóð yfir og var víða hægt að hitta hannyrðafólk í kaffi og spjall. Flestir voru þó móðir og másandi því byggðin í Fuglafirði er öll upp í mót og það tók á að labba upp allar þessar brekkur.

Við eyddum að sjálfsögðu tíma með færeyskum ættingjum okkar Tínu og Sigurd og börnum þeirra. Fórum í bíltúr að skoða náttúruna sem er ótrúlega falleg. Sáum fullt fullt af kindum út um allt…líka á flugvellinum.

Svo graffaði ég og kenndi frændum mínum Pauli og Toki að graffa.

Það sem stóð upp úr hjá mér eftir ferðina var að hitta Ellu ömmusystur. Mér fannst nefninlega svo gaman að sjá hvað hún og amma voru líkar, bæði í útliti, fasi og talsmáta. Ella lést svo stuttu eftir að við komum heim og varð því heimsóknin til hennar enn dýrmætari.

Þetta var yndisleg upplifun að heimsækja Færeyjar. Ég get varla beðið eftir að fara aftur á næsta ári þegar Bindifestivalur 2016 verður haldinn.

Kveðja
Elín c”,)

Skildu eftir svar