Árið 2014 prjónaði ég meðal annars þessa fallegu peysu sem kom í bókinni minni Tvöfalt prjón – flott báðum megin. Þessi peysa er virkilega falleg og ég ákvað í janúar að prjóna svona peysu, bara einfalda.
Ég hef alltaf forðast að prjóna opnar peysur þar sem ég fælist þetta saumavélavesen eins og ég kalla það eða að sauma með þéttu spori í brugðnu lykkjurnar áður en klippt er og peysan opnuð. Þetta vefst nú ekki fyrir mörgum en ég get geymt prjónaða peysu svo vikum skiptir af því að ég bara nenni þessu veseni ekki. Oftar en ekki hef ég bara prjónað þær fram og til baka til að losna við saumavélina…
Ég valdi færeyska garnið Navia Duo í þessar peysur og þar sem hún átti að vera í 4 stærðum gat ég ekki gengið í gömlu uppskriftina mína heldur varð að reikna lykkjufjölda út aftur og prjóna. Navia er frábært garn að prjóna úr og þetta munstur skemmtilegt að prjóna.
Fyrsta peysan mín var prjónuð á gamla mátan og ég saumaði samviskusamlega í vél en hugsaði með mér allan tímann að jú það er til önnur leið sem ég hef aldrei prófað. Ég hef séð að margir eru að nota heklunál í stað saumavélar og lofsama þá aðferð í hástert, heitir á ensku “crochet steeking”. Til að gera langa sögu stutta þá prjónaði ég næstu þrjár peysur með þessa aðferð í huga. Ég á ekki til nógu sterk orð til að lýsa ánægju minni með þessa aðferð og mun nota hana hér eftir.
Þetta er eignlega svo einföld leið og þægileg, allt sem þarf er heklunál og þynnra garn en prjónað er úr, ég notaði sokkagarn sem er sterkara en ullin. Ég skoðaði þetta blogg og prjónaði fyrstu peysuna með þessa aðferði í huga.
Prjónaskapurinn er ekki mikið frábrugðin, það eina sem breytist er að í stað þess að vera til dæmis með 4 brugðnar lykkjur upp eftir bolnum var ég með 5 lykkjur sem voru prjónaðar slétt alla leið upp en í sitt hvorum lit þ.e. lykkjur 1, 3 og 5 voru bleikar en lykkjur 2 og 4 voru hvítar. Síðan þarf að passa að skipta aldrei um dokku í þessum 5 lykkjum og ganga ekki frá endum á því svæði. Annað er næstum leikur einn.
Svo af því að ég var komin í ham og þegar peysa númer 3 var prjónuð var ég aðeins búin að fylgjast með norskri grúppu á Facebook og þar sauma þær listana fasta á peysuna áður en þær klippa upp. Þar sem ég prjónaði kant með listunum sem ég nota til að hylja sárið á röngunni vafðist það eitthvað svo fyrir mér svo ég klippti bara upp og saumaði síðan. Ég er ennþá sú sem prjóna kant með listanum til að fela sárið á röngunni en margir eru farnir að sauma borða sem er líka mjög fallegt.
Svo er að sauma listann við og fá munstrið til að passa. Ég held að einhverjir séu sammála mér þegar ég segi að það er bara heilmikil vinna við opnar peysur. Á þessum peysum prjóna ég listann saman með hálsmáli sem mér þykir koma fallega út.
Eftir að ég er búin að klippa, skipti ég listanum á bolinn og festi hann lauslega niður og sauma fastann.
Títuprjónar er líka góðir í að festa listann.
Svo er að sauma tölurnar og passa að allt stemmi, munstur í beinni línu.
Eftir að hafa prjónað þessar 4 peysur og gengið frá þeim er ég komin á þá skoðun að þetta er nú ekki eins mikið mál og ég hef alltaf sagt. Sjálfsagt í mínu tilfelli var það blessuð saumavélin sem ég bara þoldi ekki.
Þessi peysuuppskrift heitir Danshringurinn og fæst uppskrift með kaupum á Navia Duo garni í hana. Létt, hlý og falleg peysa á stelpur og stráka. Stærðir 2, 4, 6 og 8 ára.
- Smellu hérna til að kaupa þér Danshringinn eða komdu í heimsókn til okkar á Nýbýlaveg 32 í Kópavogi
- Viltu læra að klippa upp með þessari aðferð? Smelltu hérna og skráðu þig á námskeiðið okkar í apríl
- Langar þig frekar að gera peysuna tvöfalda? Þú færð bókina hérna og í verslun okkar.
Prjónakveðja
– Guðrún María