Á nálinni #1

Um þessar mundir er ég að hekla teppi handa systir kærasta míns en hún á von á litlum prins í júní. Venjulega væri eitt barnateppi ekki neitt vandamál en í þetta sinn langaði mig að prófa e-ð nýtt og eftir að hafa séð mynd á Ravelry af ótrúlega flottu sjali sem er heklað úr 3hyrningum ákvað ég að gera teppi úr 3hyrningum en ekki 4hyrningum eins og ég er vön.

Þetta teppi hefur verið vægast sagt ævintýri og í gær var ég að hugsa með mér að ég væri í tómu klúðri og ætti bara að gefast upp. En ég hef óbilandi trú á að þetta teppi verði bara flott þegar það er tilbúið svo ég get ekki gefist upp. Plús það þá væri ég búin að sóa öllum þessum tíma og garni. Það gengur ekki.

Upphaflega átti ég 3 mjööög flotta græna liti til sem Sofia frænka hafði sent mér frá Danmörku. Átti 100 gr dokku af hverjum lit og reiknaði með að það myndi duga.

En þegar ég var langt á leið komin sá ég að ég myndi ekki hafa nóg garn til að klára teppið. Ég gæti jú gert það frekar lítið og heklað með 4ða litinum í kring en það heillaði mig ekki. Svo ég bætti við þessum grá-græn-bláa lit sem ég átti einnig 100 gr dokku af.

En nei mér fannst þessir 4 litir ekki aaaalveg vera að passa saman. Eins flott og mér finnst sprengda garnið þá er það bara ekki að passa með þessum nýja grá-græn-bláa. Þannig ég ákvað að taka sprengda garnið úr mixinu og bæta við öðrum lit.

Þegar sá litur var kominn inn. Fannst mér sá mosagræni alls ekki passa inn í teppið. Og þar sem nýjasti liturinn fæst hér á Íslandi en ekki hinir 3 þá ákvað ég að kippa þessum mosagræna út og hafa bara 3 liti. Baby-blá-græna, blá-grá-græna og dökk-græna.

Þannig hefur ásýnd teppisins breyst heilan helling frá byrjun. Þá er spurningin hvernig á að hekla teppið saman. Ég ætlaði að prófa að hekla það saman með keðjulykkjum en það kom ekki alveg út eins og ég vildi það. Þannig að ég ákvað að gera eins og ég geri vanalega að hekla það saman með fastapinnum.

Eini ókosturinn við það er að þá hallar saumurinn alltaf í aðra áttina og ef saumurinn hallar ekki alltaf í sömu áttina þá getur það orðið ljótt. Það er ekkert mál að passa það þegar heklaðir eru saman 4hyrningar en gæti orðið mun flóknara með svona 3hyrninga þar sem það eru mun fleiri hliðar – væntanlega.

En þegar ég séri þessum prufubút mínum við fékk ég algera hugljómun og gerði enn eina breytingu á teppinu mínu. Nú ætla ég að hekla það saman með keðjulykkjum en hekla það saman á röngunni. Sem sé aftan á teppinu.

Þá liggja brúnirnar svona fallega saman að framan, þó saumarnir sjáist reyndar ef teppið er aðeins togað í sundur en það skiptir engu þegar saumarnir eru í sama lit og einn búturinn. Svo ætla ég mér að hekla í kringum teppið í þeim lit líka.

Þá er bara það eina sem á eftir að ákveða er hvernig ætla ég að hekla í kringum það?

Svo set ég inn myndir af teppinu þegar það er tilbúið c”,)
Ætla líka að skellin inn uppskrift af 3hyrning á íslensku við tækifæri.

Skildu eftir svar