Peysan Ellý

Eftir að uppskriftin af peysunni Ellý kom út hef ég oft fengið spurninguna: Af hverju heitir hún Ellý? Af hverju Alzheimersamtökin?

Yngri systir mín hún Ellý greindist með Alzheimer tæplega 52ja ára gömul. Greining hennar var gífurlegt áfall fyrir okkur öll. Þessi grimmi sjúkdómur sem engin lækning er til við hafði sest að hjá litlu systur minni. Ellý sem var í huga mér hreystin uppmáluð, hugsaði vel um heilsu sína og lifði mjög heilbrigðu lífi. Áfallið var mikið og hvað framtíðin bæri í skauti sér var óvissa og sorgin sem fylgdi mikil.

Ellý tók fljótlega þá ákvörðun að tala opinskátt um greininguna og lífið með Alzheimer. Hún opnaði á umræðuna með fyrirlestri hjá Íslenskri erfðagreiningu sem bar yfirskriftina Þegar minnið hopar. Þau hjónin hafa verið ötul í umræðunni um yngra fólk sem greinist með Alzheimer og eftir að Ellý hrakaði hefur Maggi mágur (Magnús Karl Magnússon) tekið boltann. Hann hefur alla tíð staðið eins og klettur við hlið konu sinnar og staðið sig eins og hetja

Ellý ásamt eiginmanni sínum Magnúsi og börnum þeirra, Ingibjörgu og Guðmundi.

Þrátt fyrir mörg afrek, miklar hugsjónir og framtíðarsýnir þegar kom að vinnu og frama hjá Ellý, eru minningar mínar tengdar svo mörgu frá æsku okkar og uppeldi sem og þeim hugmyndum sem við deildum saman um lífið og síðar um lífið á okkar efri árum sem við fáum nú ekki að njóta saman. Að vera ömmur og fylgjast með barnabörnum okkar dafna.

Við systkinin vorum 4, Pétur (f. 1958), Stína (f. 1961 d. 2007) ég f. 1963 og Ellý f. 1964.

Það var mikið líf og fjör á heimilinu þegar við vorum að alast upp í Hvassaleiti. Í stigagangnum voru mörg börn og samgangur á milli íbúða mikill. Æskuvinkonur halda enn hópinn sem er dýrmætt.

Æskuvinkonur hittast

Mínar fyrstu minningar um okkur systur tengjast siglingum okkar til Færeyja. Móðir okkar, Petrea, var færeysk og fórum við annað hvert sumar til Færeyja. Ég man nú ekki hvað við vorum lengi á leiðinni en sjóveik vorum við öll. Svona geta misjafnir atburðir lifað í minningunni. Við systur röltum líka mikið um skipið, prúðbúnar og fínar tilbúnar að hitta ættingja í Færeyjum. Mikið var gott þegar beint flug hófst til Færeyja. Ég man líka eftir að hafa verið að kenna Ellý að binda slaufu, laga hnésokkana hennar sem runnu niður á ökla. Minningin um okkur systur að læra að hjóla sem Pétur bróðir sýndi mikla þolinmæði við að kenna okkur.

Við systur erum ekki líkar í útliti og höfum frá unga aldri þurft að svara spurningunni “Eruð þið alsystur?” Já við erum alsystur önnur rauðhærð og hávaxin hin með svart hár og lægri í loftinu. Við fylgdumst alltaf að og með hvor annarri.

Fermdumst saman.
Vorum oftar en ekki eins klæddar þegar við vorum litlar.
Og lékum við sömu krakkana.

Það kom fljótlega í ljós þegar skólaganga hófst að Ellý var meira fyrir lestur bóka en ég sem vildi helst sitja og prjóna með mömmu. Ellý las alla tíð mikið og er langskólagengin. Áhugi hennar á umhverfisvernd og hlýnun jarðar er mikill. Ég man eftir því að ég bara skildi ekki hvað hún var að tala um og hafði jú litlar áhyggjur af þessu málefni. Þegar svo loks kviknaði áhugi hjá mér fyrir alvöru sakna ég þess að geta ekki leitað til Ellý og fengið svör á hreinskilin hátt.

Ellý á afmæli í dag,15. september. Við systur heyrðumst eða hittumst alltaf þegar við áttum afmæli. Ég fæ ekki lengur símtöl frá Ellý í hvert skipti sem afmæli rennur upp. Ellý hringdi alltaf á afmælisdegi allra barna minna og barnabarna. Það eru margir litlir hlutir sem maður saknar en áttar sig ekki endilega alltaf á hvað þeir skiptu máli fyrr en þeir hverfa.

Ellý dvelur í dag á hjúkrunarheimilinu Roðasölum. Henni hefur hrakað mikið og tekur það á alla að horfa á hennar persónuleika hverfa smátt og smátt. Hún hefur haldið í jákvæðni og alltaf glöð þegar við hittumst.

Læt hér fylgja með mynd af okkur systrum í myndatöku árið 1966. Ég stend á milli þeirra Stínu og Ellý. Stína lést árið 2007 eftir harða baráttu við krabbamein aðeins 45 ára gömul.

 

Við vinnum misjafnlega úr sorginni en peysan Ellý er ein af mínum leiðum til að minnast Ellýjar og styrkja Alzheimersamtökin á Íslandi um leið.

Ég fer af stað með samprjón á Ellý peysunni. Samprjónið hefst 1. október n.k og fer fram í Facebook hópnum “Ellý peysan samprjón”.

Uppskriftina kaupir þú hérna eða á Ravelry eða heimsækir okkur í verslunina Handverkskúnst, Hraunbæ 102a, 110 rvk. Allur ágóði af sölu uppskriftarinnar rennur til Alzheimersamtakanna á Íslandi.

Ég þakka öllum þeim sem taka þátt í samprjóninu og styrkja um leið gott málefni og vona að spurningunum: Af hverju heitir hún Ellý? Af hverju Alzheimersamtökin? hafi verið gefin svör.

Sjáumst í Facebook hópnum “Ellý peysan samprjón”.

Kær kveðja,
Guðrún María