Hello Kitty teppið

Hello kitty teppi saman partur klippt merkt

Ég ákvað í janúar 2014 að prjóna 3 teppi með tvöfalt prjón aðferðinni. Ömmugullin mín Aþena Rós, Maía Sigrún og Mattías Móri áttu að fá þessi teppi í jólagjöf. Ég hófst handa 8. janúar og ætlaði að prjóna teppin svona inn á milli verkefna fram að jólum 2014. Það kom svo í ljós að ég er aldrei verkefnalaus svo teppið hennar Aþenu varð ekki langt árið 2014. Kláraði eingöngu 54 umferðir af 306 🙂

Hello kitty teppi partur 0 merkt minnkud

2. janúar 2015: Ég  sá að með þessu áframhaldi yrðu teppin seint tilbúin svo ég ákvað að ég mætti ekki prjóna neitt annað fyrr en þetta teppi yrði tilbúið.

Hello kitty teppi partur 1 merkt minnkud

Hello kitty teppi partur 2 merkt

5. janúar: Prjónaskapurinn gengur bara vel. Hér er komið að því að teikna upp nafnið og prjóna. Teppið farið að þyngjast en það var ekki verst heldur var mér orðið ansi heitt að sitja með það í fanginu og prjóna. Vitandi að hitinn ætti bara eftir að aukast dugði ekkert annað en að bíta á jaxlinn og halda áfram. Jú ég mátti ekki byrja á öðru prjónaverkefni fyrr en teppið væri klárt og ég var með svo margt á verkefnalistanum 🙂

Hello kitty teppi partur 3 merkt

7. janúar: Nafnið komið og þá var stór partur búinn. Ég sá fram á að Hello Kitty sjálf færi að myndast hjá mér.

Hello kitty teppi partur 5 merkt minnkud

10. janúar: Aþena er mikill aðdáandi Hello Kitty og fylgdist vel með framvindu mála í prjónaskapnum en þótti amma ansi lengi með teppið

Hello kitty teppi partur 4 merkt minnkud

10. janúar: Hello Kitty tilbúin og ég farin að sjá fyrir endann á teppinu, búin með 206 umferðir og bara 87 umferðir eftir 🙂

Hello kitty teppi saman merkt18. janúar: Teppið tilbúið og nú átti ég bara eftir að hekla kant hringinn í kringum það. Ég sá fyrir mér hvernig kant ég vildi hafa og þar sem ég bý svo vel að eiga heklsnilling, leitaði á náðir hennar Elínar 🙂

Hello kitty teppi partur 9 hekl minnkud

25. janúar: Kanturinn klár og teppið þvegið

Hello kitty teppi partur 8 bleikt merkt minnkad

Hlið A

Hello kitty teppi partur 8 hvítt merkt minnkad

Hlið B

Stærð:
103×142 án heklaða kantsins

Garn:
Special Aran with Wool (keypt í Nettó)
Stóru dokkurnar úr A4 og Hagkaup hafa sömu prjónfestu
Bleikur nr. 3347 – 2 dokkur
Hvítur nr. 3366 – 2 dokkur

Prjónar:
80 sm hringprjónn nr. 5½

Prjónfesta:
16 lykkjur og 22 umferðir = 10×10 sm

Þegar Móri sá teppið tilbúið sagði hann “amma ég vil Spiderman teppi” svo nú er ég að teikna það upp og svo verður hafist handa við prjónaskapinn. Teppið hennar Maíu Sigrúnar er ég búin að teikna upp en þar sem hún er yngst (14 mánaða) verður hún síðust í röðinni 🙂 Teppin þeirra verða þó prjónuð á þessu ári. En nú ætla ég að leyfa mér að prjóna nokkur stykki áður en ég fer í teppaprjón aftur 🙂

Uppskrift af teppinu má nálgast hérna (verður að smella á HK teppi vinstra megin, til að hlaða því niður í Excel formi).

Prjónakveðja – Guðrún María

Skildu eftir svar