Feldglugginn 2026

Fyrsti gluggi ársins er tileinkaður hekluðum feldum!
Það er ekki langt síðan við sáum fyrst hekluðu feldina sem Laufey aka Lola Ýr var að hanna. En við féllum strax fyrir þeim og þegar það þurfti svo að ákveða hvað ætti að setja í næstu gluggaskreytingu þá fannst okkur tilvalið að skella í nokkra feldi og hafa í glugganum.

Gluggaskreytinguna gerði Svava hjá Listrænni ráðgjöf og kemur glugginn ótrúlega vel út hjá henni – eins og alltaf.

Fringe Fur nr.1 – uppskriftina færðu hér.

Fyrsti feldurinn var einfaldastur í framkvæmd. Grunnurinn er heklaður úr DROPS Air með 10mm heklunál og feldurinn er gerður úr DROPS Alpaca Bouclé með 5,5mm heklunál. Feldurinn er í stærðinni small og fóru í hann 2 dokkur af Air natur (nr 01) og tæplega 5 dokkur af Alpaca Bouclé rjómahvítur (nr. 0100). Ég var með tvöfaldan þráð af Alpaca Bouclé í feldinum en það er líka hægt að hafa einfaldan þráð ef þú vilt hafa hann minni um sig.

Fringe Fur nr.2 – uppskriftina færðu hér.

Seinni feldurinn var aðeins seinlegri í framkvæmd því ég var með tvær garntegundir í feldinum. Grunnurinn er heklaður úr Vera by Permin með 10mm heklunál og feldurinn er úr Angel by Permin og Leonora by Permin með 5,5mm heklunál. Það er algengara að feldurinn sé bara úr mohair garni en mér þótti skemmtilegt að hafa tvo ólíka þræði saman til að gefa feldinum meiri hreyfingu. Þessir tveir litir voru að koma nýir frá Permin og mig langaði svo að geta notað þá í eitthvað.

Þessi feldur er líka í stærðinni small og fóru í hann 2 dokkur af Veru í litnum Bordeaux (nr 512), tæplega 3 dokkur af Angel mohair í litnum Vinrød (nr 28) og tæplega 2 dokkur af Leonora í litnum Efterårsbær (nr 440). Í feldinum eru tveir þræðir af Angel mohair og einn þráður af Leonora. Gæti trúað að það myndi duga 4 dokkur af mohair ef það væri bara tekið mohair og haft þrefaldan þráð. Ég náði ekki að taka betri mynd af þessum feld áður en hann fór á gínuna en það sést á gluggamyndinni hvað hann kemur fallega út.

Fringe Jacket – uppskriftina færðu hér.

Jakkinn tók lengstan tíma í framkvæmd, skiljanlega þar sem hann er stærstur. Jakkinn er í stærðinni XL og er heklaður úr DROPS Air með 10mm heklunál og Bellissima by Permin með 5,5mm heklunál. Mér þótti jakkinn svo stuttur eitthvað á mér þegar ég var að máta hann áður en kögrið fór á svo ég lengdi búkinn um 1 umferð og ermarnar um 3 umferðir. Þegar ég fór svo að setja kögrið í þá teygðist úr jakkanum og endaði ég á að festa ekkert í þessar auka umferðir, þær eru enn á jakkanum þar sem ég hafði ekki tíma til að rekja þær upp.

Ég fór með 4 dokkur af DROPS Air ljósbeige (nr 55) í grunninn (hefði sloppið með 3 dokkur ef ég hefði ekki eytt garni í þessa óþarfa stækkun) og 7 dokkur af Bellissima í litnum lys camel (nr 67). Það er einfaldur þráður af Bellissima í jakkanum. Systir mín gerði sér jakka úr sama garni en í stærðinni M/L og hún fór með 3 dokkur af Air og 6 dokkur af Bellu by Permin.

Ég væri til í að gera fleiri feldi bara til að geta prófað ólíkar týpur af garni og sjá hvernig þeir kæmu út. Annað garn sem mér hefur dottið í hug að gera úr er: DROPS Brushed Alpaca, DROPS Melody, DROPS Kid-Silk, Hannah by Permin, Bella by Permin, Bella Color by Permin og jafnvel Ricorumi FurryFurry. Gæti líka komið vel út að bæta við einhverju smá skrauti með Rico Make it Tweed, Rico Make it Blumchen, Lammy Lurex eða Madeira glitþræði.

En ég held að feld framleiðslan mín sé búin um sinn. En hver veit hvað ég geri seinna 🙂
Hekl kveðjur Elín