Í Árbæjarsafni stendur yfir sýningin “Þræðir sjónlista”. Ég tók eftir peysum sem þar áttu að vera og dreif mig í kulda og rigningu dagsins í safnið að skoða herlegheitin. Öll munstur eru fengin úr hinni frábæru Sjónabók sem geymir íslensk munstur frá 17. 18. og 19. öld, geysilega skemmtileg og eiguleg bók fyrir okkur sem höfum áhuga á handavinnu hvers konar.
Greta Sörensen, prjónahönnuður sýnir 4 peysur sem eru vélprjónaðar og eru þær algjört augnakonfekt.
Eftir síðustu heimsókn mína í Ömmu Mús hefur áhugi minn á að sauma út púða aftur vaknað. Á sýningunni eru púðarnir hennar Guðrúnar Kolbeins, listvefara eru virkilega fallegir. Þeir heita: Bláa blómið, Bleika blómið, Græna blómið og Afleggjari.
Að lokum voru 2 myndir eftir Jóhönnu E. Pálmadóttur
Það er svo alltaf gaman að skoða sig um í versluninni og sjá hvernig íslensk munstur eru framleidd á fleiri vörur hjá okkur eins og t.d. þessar fallegu servéttur og suðusúkkulaði.
Guðrúnardætur komnar með vörur til sölu í safninu.
Í dag var einnig í gangi sýning á gömlum bílum sem Fornbílaklúbbur Íslands stóð fyrir. Alltaf gaman að skoða bílana en þessir heilluðu mig mest, kannski af því að þegar ég var barn setti ég saman ófá módelin af þessum tegundum og málaði. Held samt að ég tæki mig afskaplega vel út í þessum bleika á götum borgarinnar 🙂
Góð ferð á safnið í dag og þrátt fyrir kulda og rigningu skemmtu börnin sér vel og var þessi lest mjög vinsæl hjá þeim.