Ég hef gert aragrúa af barnateppum og flest þeirra strákateppi. Því verð ég alltaf sérstaklega spennt þegar ég fæ að gera stelputeppi.
Í haust kom í ljós að litlasta systir mín væri ólétt og fór hausinn á mér á fullt að hugsa um allt sem ég gæti og ætlaði að hekla handa litla barninu. Húfur, vettlinga, sokka, skó, peysur, auðvitað teppi – og já bara heilan helling! Möguleikarnir eru endalausir þegar kemur að því að hekla handa litlum börnum ekki satt.
Þegar leið á meðgönguna kom í ljós að það var ekki allt eins og það ætti að vera. Og litla barnið var mjög veikt. Við héldum lengi í vonina að allt myndi vera í lagi…en þegar tíminn leið þá kom það betur í ljós að það var því miður alls ekki í lagi.
Því fæddist litlasta frænka mín andvana langt fyrir sinn tíma.
f. 17. desember 2010
Alveg ótrúlega smá en samt alveg tilbúin og ótrúlega fullkomin.
Hún fékk samt sem áður teppið sitt – það bara mjög sætt þótt ég segi sjálf frá – og fékk teppið að fara með henni í kistuna þegar hún var jörðuð í dag.