Samstarfsverkefni jólanna

Ég hef verið að krosssaumast aðeins í desember. Hann Mikael minn hefur setið og fylgst með því hvað ég hef verið að gera. Á jóladag spyr hann mig svo: “Ef ég teikna mynd af Nyan Cat getur þú þá saumað hana fyrir mig?” Mér fannst þetta svo skemmtileg spurning að auðvitað var svarið já.
Kallinn minn (sem er ekki litli kall lengur því hann er jú 10 ára) 
hófst þá handa og teiknaði upp mynd af Nyan Cat.
Hann fékk að ráða öllu í sambandi við myndina.
Hvaða litir voru notaðir.
Hvar myndir yrði staðsett í rammanum.
Hvar stafirnir yrðu.
Eina sem óskin sem ég kom með var að við myndum sleppa því að gera
dökkbláan bakgrunn yfir alla myndina…átti hreinlega ekki þræðina í það.

Mér fannst þetta svo ótrúlega skemmtilegt verkefni hjá okkur mæðginum.
Og hann hafði voða gaman af því að mér skyldi finnast skemmtilegt að gera þetta fyrir hann.

Þegar Nyan Cat var tilbúinn spurði Mikael svo hvort ég gæti kennt honum að sauma. Aftur var svarið já. Hann sat svo sveittur við að teikna upp mynstur fyrir sig – broskall, zombie og creeper. Um leið og ég var búin að fara út í búð að kaupa java, nál og þræði handa honum byrjaði hann að sauma. Og merkilegt nokk hann náði þessu mjög fljótt.

Mikael hefur alltaf verið mjög skapandi og haft sérstakan áhuga á að gera mynstur og slíkt. Hann byrjaði að perla þegar hann var mjög lítill örugglega bara 3ja ára og perlaði endalaust – stundum eftir uppskriftum en oftast bara upp úr sjálfum sér. Eftir að hann stækkaði þá varð Lego meira spennandi. Og í dag teiknar hann mikið mynstur í tölvunni og byggir ýmislegt í Minecraft (sem er tölvuleikur sem er í raun ein stór Lego veröld). Svo þótt krosssaumur sé ekki algengt áhugamál fyrir 10 ára strák þá er þetta í raun mjög eðlileg þróun fyrir hann – að halda áfram að teikna og skapa mynstur.
Ég mun pottþétt setja myndir af því sem hann gerir þegar hann klárar. Vonandi missir hann ekki áhugann áður en það gerist.

Skildu eftir svar