Ég hef prjónað heimferðasett á öll mín börn og barnabörn. Þegar von var á 9. barnabarninu í maí s.l. lagði ég heilann í bleyti og velti fyrir mér næsta setti. Foreldrarnir ákváðu að fá ekki að vita kynið fyrirfram þannig að ég lagði upp með að prjóna peysu í lit sem hentaði bæði stelpu og strák og skreyta svo með húfu og sokkum í sitthvorum lit.
Úr varð að settið Stuðlar var prjónað í sitthvorum lit og síðan ljósgrá peysa (uppskriftin ekki tilbúin af peysunni).
Ég notaði garnið Scheepjes Metropolis sem við erum að prófa og velta fyrir okkur að taka í sölu.
Þessir litir voru valdir þar sem móðirin valdi teppi í gulu og gráum litum og uppskriftin að Maí teppi varð til. Það er prjónað úr Scheepjes Whirl og uppskriftina færðu hérna
Þrátt fyrir að settið væri klárt og bara beðið eftir að barnið væri tilbúið að koma í heiminn var ég einhvern veginn aldrei alveg sátt við þetta sett. Ég viðurkenni að ég er mjög föst í stelpu- og strákalitum. Svo þegar ég heyrði á móðurinni að ef þetta væri stelpa vildi hún gjarnan vera með bleikt til að setja hana í fyrir heimferðina….þá varð ekki aftur snúið. Ég fór heim með bleikan og bláan lit í Drops Baby Merino og úr varð Nóel gallinn
Ég er mjög ánægð með þennan galla og ekki skemmir að þarna fékk ég að prjóna gatamynstur og kaðla, sem eru ein af mínum skemmtilegustu mynstrum. Gallin kemur í stærðum 0-24 mánaða, prjónaður úr Drops Baby Merino á prjóna nr 3. Uppskriftina færðu hérna
Litli prinsinn minn er hérna 10 vikna í gallanum í stærð 0-3 mánaða. Ég þarf að prjóna nýjan á hann fyrir veturinn og vel einhvern hérna
Þegar ég fór til Spánar í maí s.l. tók ég með mér garn til að prjóna líka ungbarnapeysu og bleijubuxur með sams konar mynstri. Já ég er mjög ánægð með þetta einfalda en fallega mynstur og fer aldrei langt án þess að hafa prjónana með mér 🙂
Prjónað á ströndinni á Tossa de Mar – valdi litina púðurbleikan nr 44 og lyng nr 34.
Settið samanstendur af peysu, húfu og bleijubuxum, uppskriftina færðu hérna, einnig er hægt að versla í sitthvoru lagi hérna.
Peysan endaði reyndar með að koma líka í barnapeysuútgáfu þar sem ég fékk beiðni um að gera hana stærri. Hún kemur í stærðum 2-8 ára, prjónuð úr Drops Baby Merino á prjóna nr 3. Uppskriftina færðu hérna
Prjónakveðja
Guðrún María