Mikael litar garn

Ég fann þessa bráðskemmtilegu bloggfærslu um daginn, á blogginu Pea Soup, þar sem sýnt er hvernig hægt er að lita garn með börnum. Mér fannst þetta frekar krúttað og datt í hug að ég gæti mögulega nýtt hugmyndina sem verkefni fyrir nemendur þegar ég fer að kenna. Svo ég brá á það ráð að spyrja hann Mikael minn hvort hann væri til í smá tilraunastarfsemi með mér. Uppáhaldsföndrarinn minn sagði sko ekki nei og var meira en til í að hjálpa mömmu sinni.

091 copy

Efni: 1 dokka af Baby Ull úr Byko, matarlitir sem við áttum til, edik.
Garnið lá í ediki yfir nótt. Þetta er víst gert til að liturinn festi sig betur.
Lyktin finnst mér þó svakalega vond.
Mikilvægt er að hafa gott undirlag. Ég var með gömul dagblöð og viskustykku sem mátti fara til spillis.
Það fór þó aðeins í gegn á borðið en það reddaðist því ég þreif það strax.

092 copy

Mikael sestur niður og tilbúinn í fjörið.

093 copy

Þegar Mikael var búinn að lita garnið eins og hann vildi þá setti ég það í skál, helti vatni yfir og hitaði í örbylgjuofninum í smá stund. Held að þetta sé gert til að festa litinn betur.

Mistök: Ég gerði tvö stór mistök í þessari tilraunastarfsemi.
(1) Ég gleymdi að binda garnið þegar ég vatt það upp svo það flæktist frekar mikið hjá mér.
(2) Ég hengdi garnið til þerris á viðarherðatré sem litaði frá sér í garnið því krókurinn á því var aðeins byrjaður að ryðga.

080 copy

Þegar garnið var þornað, af-flækt og komið í hnykil leit það svona út. Bara mjög sætt hjá honum Mikael mínum.

Upprunalega hugmyndin mín var að leyfa nemendum að lita eina dokku af garni sem þeir myndu svo nota til þess að prjóna eða hekla eina flík á sig úr. Mikael var ekki svo spenntur fyrir því svo við ákváðum að ég myndi nota garnið sem hann litaði til að gera sokka handa litlu systur sem á að fæðast í nóvember.

001 copy

Og þar sem garnið var hvítt, rautt og grænt þá ákvað ég að hekla jólasokka handa litlu dömunni.

003 copy

Uppskriftina að sokkunum fékk ég hér.

Þetta verkefni heppnaðist bara vel hjá okkur mæðginum. Við skemmtum okkur ágætlega saman að lita garnið. Mikael er sáttur með lokaniðurstöðuna og finnst systrasokkarnir hans bara frekar flottir.

Tilraunakveðjur
Elín c”,)

Skildu eftir svar