Lopavettlingar á leikskólabörnin

Lopavettlingar3_m

Eins og ég hef áður talað um hér á blogginu þá er stutt síðan ég byrjaði að prjóna úr íslenska lopanum. Ég hef ekki neina sérstaka skýringu á því aðra en að hann stingur og mig klæjar undan honum. Ég er aftur á móti alveg forfallin þegar kemur að börnum og Disney get endalaust prjónað eitthvað sem tengist Disney fígúrum og prinsessum.

Barnabörnin mín njóta í dag góðs af því og þegar hún Ása Hildur (Buffaló-Ása) kom með Frozen lopavettlingana í fyrra bara varð ég að heimsækja hana í prjónakaffið í Krika og prjóna eina handa Aþenu. Veit ekki hvor var spenntari fyrir þeim amman eða barnabarnið 🙂

Frozen vettlingar AR merkt

Til að gera langa sögu stutta þá voru þessir vettlingar notaðir í allan vetur og héldu höndum Aþenu hlýjum í kuldanum. Leikskólakennararnir á leikskólanum hennar sögðu mér að þetta væru albestu vettlingar fyrir  börnin þ.e. prjónaðir vettlingar úr lopa. Háir upp á handlegginn og svo þæfist lopinn við notkun í snjó og bleytu þannig að þeir eru afskaplega hlýir.

Það þurfti ekki að sannfæra ömmu meira og prjónaði ég nú í vikunni nýja vettlinga fyrir næsta vetur handa yngstu barnabörnunum mínum. Ég nota áfram uppskriftina hennar Ásu þar sem hún er einstaklega góð að prjóna eftir og smellpassar á litlar hendur. Í ár breytti ég um mynd á þeim eiginlega bara svo Aþena verði ekki aftur með Frozen vettlinga næsta vetur.  Móri fékk Batman vettlinga, Maía fær kanínu (er með fílavettlinga á myndinni en ég þarf að minnka þá aðeins fyrir hana) og Aþena fékk útgáfu af áttablaðarós.

Munstrin eru ekki mín heldur fann ég þau frí á netinu og læt þau fylgja hér með ef þið viljið prjóna þessa góðu vettlinga í fleiri útgáfum.

Lopavettlingar_m

 

Þó svo að það sé ekki kalt í dag þá held ég að Móri verði með vettlingana á höndunum, hann var himinlifandi með þessa Batman vettlinga. Aþena kallar sína Frozen þó svo þeir séu bleikir en Maía er bara glöð að vera með í liðinu.

Lopavettlingar2_m

Aþena Rós, Maía Sigrún og Mattías Móri, þrjú yngstu ömmugullin mín

Hérna finnur þú .pdf skjal

– með munstrunum

– uppskrift af vettlingunum

Prjónakveðja
Guðrún María

Skildu eftir svar