Þegar ég var að hugsa um að skrifa þessa færslu fannst mér ég ekki hafa komið miklu í verk þetta árið – handavinnulega séð. En eftir að hafa flett í gegnum myndir ársins sá ég að ég tók upp á ýmsu.
Kláraði löber sem átti að vera jólagjöf.
Mágur minn varð þrítugur og fékk þessa mynd. Myndin var samvinnuverkefni fjölskyldunnar, unglingurinn hannaði kafbátinn og við hjónin saumuðum út.
Lítill herramaður að nafni Daníel fæddist í janúar og fékk þetta teppi að gjöf.
Jóhanna amma dó í febrúar. Hún fór reglulega með þessa bæn fyrir barnabörnin og fór þessi mynd með henni í kistuna.
Við Guðmunda kisa eyddum mörgum stundum saman með handavinnuna.
Fór í vettvangsnám sem kennaranemi og fék að kenna 5. bekkingum að vefa.
Fór til Færeyja í apríl á Prjónafestival sem var vægast sagt æðislegt. Færeyingar eru höfðingar heim að sækja, landið fallegt og ég var barnlaus í heila viku. Þvílíkur lúxus!
Í Færeyjum kenndi ég frændum mínum Pauli og Tóki að graffa. Þeir voru mun spenntari fyrir þessu en ég bjóst við og skreyttu garðinn sinn með hekli.
Ég prjónaði og labbaði á sama tíma…og fannst ég frekar töff.
Fór á vinnustofu og lærði nýtt prjón. Notaði þessa nýju færni til þess að graffa fyrir utan húsið hjá Tínu frænku og Sigurd í Fuglafirði.
Heklaði samt líka i Færeyjum og hannaði þetta teppi. Garnið er færeyskt og munstrið er fengið af færeyskri peysu. Nýji eigandinn er þó íslenskur herramaður að nafni Arnór sem fæddist í maí. Liturinn var sérstaklega valinn fyrir mömmu Arnórs.
Jurtalitaði garn með lauk. Byrjaði að prjóna vettlinga en komst aldrei lengra en þetta.
Keypti garnbúð með mömmu. Það er nokkuð merkilegt.
Heklaði utan um steina.
Skellti í Horna á milli púða sem var skemmtilega glitrandi.
Heklaði mér Kríu sjal. Löngu á eftir öllum öðrum.
Átti margar góðar stundir úti í góða veðrinu með hekl, kaffi og krakkana.
Byrjaði að hekla púða…er næstum því búin með hann.
Byrjaði á mörgum öðrum verkefnum sem ég mun liklegast aldrei klára.
Heklaði þessa peysu. Finnst hún frekar flott þótt ég segi sjálf frá.
Heklaði nokkrar krukkur eins og vanalega.
Heklaði skvísukraga fyrir Maíu og Aþenu. Maía var ekki alveg að vinna með mér í myndatökunni.
Áttaði mig á því að ég er með bómullarblæti.
Heklaði þrjár mandölur til heiðurs heklara sem tók sitt eigið líf.
Eiginmaðurinn fann einu sinni mynd af hekluðum typpum á netinu og sagði: “Þú mátt hekla svona handa mér”. Sem ég gerði og gaf honum í brúðkaupsafmælisgjöf.
Prufaði ný munstur.
Tók heklið oftar en ekki með mér á kaffihús.
Kláraði fánalengju sem ég byrjaði á fyrir löngu síðan.
Graffaði ljósastaur fyrir utan vinnuna.
Bjó til “nýtt” garn úr afgöngum og prjónaði utan um herðatré.
Fór til Köben og kenndi námskeið í tvöföldu hekli. Verð að játa að ég var frekar stressuð að kenna í fyrsta sinn á öðru tungumáli en íslensku. Að sjálfsögðu voru dönsku heklararnir ekkert nema almennilegir og námskeiðið gekk vonum framar.
Heklið var tekið með trompi í Köben. Meir að segja mamma lagði prjónana til hliðar og heklaði eins og vindurinn.
Heklaði fyrsta teppið mitt með tvöföldu hekli. Var búin að steingleyma því. Á algerlega eftir að mynda það og monta mig.
Byrjaði að hekla Vírussjalið sem tröllreið öllu. Var hálfnuð þegar ég rakti allt upp vegna villu. Mér til varnar þá var þetta frekar stór villa.
Fyrir vikið var seinni útgáfa sjalsins einstaklega vel heppnuð.
Heklaði sokkaleista sem eru víst meira tátiljur.
Notaði mömmu sem fóta módel. Það fór henni bara vel.
Heklaði þennan fína hálskraga úr Navia ullinni. Guli liturinn var í uppáhaldi hjá mér þetta árið.
Byrjaði á OG kláraði teppið Hjartagull. Það er án efa eitt af því fallegasta sem eg hef heklað.
Heklaði vettlinga. Ekki bara eitt par heldur tvö.
Jólaskraut er eitt af því sem ég elska að hekla. Byrjaði alltof seint að hekla fyrir jólin. Hefði þurft að byrja í september til að komast yfir allt sem mig langaði til að hekla. En það koma jól eftir þessi jól.
Þessi stóra bjalla lifði ekki lengi. En það sullaðist yfir hana kaffi. Ég þarf að fara að læra að geyma kaffið mitt lengra frá kaffinu.
Uppáhaldsverkefni ársins eru jólakúlurnar mínar. Þær eru alla vegana uppáhalds núna. Mér finnst þær fullkomnar og þær eru svo dásamlega fallegar á jólatrénu mínu.
Nýja árið leggst vel í mig. Vona að það sama eigi við um þig.
Óska öllum gæfu, gleði og sköpunar á nýja árinu sem er að ganga í garð. Takk fyrir það gamla.
Elín