Fjölskyldusteinar

Eftir að hafa lengi hugsað um að blogga þá ákvað ég loks í kvöld að setjast niður og blogga. Það eru ekki nema 9 mánuðir síðan ég bloggaði síðast. Ég hugsa reglulega til þess hversu oft ég bloggaði hér á árum áður. Fyrir um 7 árum (vá hvað tímanum líður) byrjaði ég að blogga undir nafninu Handóð. Hvatinn þá til að blogga var að ég þekki fáa sem enga heklara og var oft einmana þegar það kom að heklinu. Ég hafði mikla þörf fyrir að ræða allar þær vangaveltur sem ég hafði um heklið en flest allar samræður voru einhliða þar sem viðmælendur mínir höfðu engan áhuga á hekli. Man alltaf eftir því þegar ein sem vann með mér sagði: “Æj Elín, þegar þú byrjar að tala um þetta hekl þá líður mér eins og þegar kærastinn minn er að tala um fótbolta”.

Því eins og fyrr segir byrjaði ég að blogga um heklið mitt og uppskar heilmikið úr því – meðal annars að kynnast fleiri heklurum. En fyrir 7 árum var tíðin önnur og aðstæður allt aðrar. Eftir vinnu á hverjum degi tók við heilagur “Dr. Phil og hekl” tími áður en nokkuð annað var gert á heimilinu. Ég var þá einstæð með einn 9 ára gutta sem var ekkert ósáttur þótt hann fengi smá frið fyrir mömmu sinni á meðan hún bloggaði. Og því var ég gífurlega öflug í blogginu. Í dag eru aðstæður töluvert öðruvísi, börnin orðin þrjú og það eru margar vikur ef ekki mánuðir síðan ég horfði á Dr. Phil.

Þar sem ég er enn einstæð þá er ég oftar en ekki gífurlega þreytt í lok dags og ég verð bara að játa að ég er alveg núll spennt fyrir því að blogga. En ég hekla, það breytist aldrei. Eftir að börnin eru komin í rúmið og unglingurinn flúinn inn í herbergi byrjar heilagur “sjónvarpsgláp og hekl” tími. Nú orðið hekla ég oftar en ekki með tilgang, ég er að hekla til þess að búa til uppskrift eða ég er að hekla eftir uppskrift sem hægt er að benda öðrum á. En inn á milli koma verkefni þar sem ég er bara að hekla til að skapa og útkoman er það eina sem skiptir máli. Það besta samt við það er að ég slaka svo vel á, ég er bara í núinu að skapa og mér líður svo vel.

Og þar komum við að titli þessarar bloggfærslu. Því þessir steinar, sem ég kalla Fjölskyldusteinana okkar, eru einmitt þannig verkefni. Einn daginn greip mig þessi sterka þörf til að skapa og útkoman varð þessi. Undanfarinn var þó töluvert lengri í raun og veru, ég skal útskýra mál mitt frekar:

  • Ég dýrka að fara á Nytjamarkaði og sanka að mér alls konar dóti þaðan. Mikið af þessum gersemum tengjast að sjálfsögðu hannyrðum og þá oftar en ekki hekli. Ég kaupi rosalega mikið af gömlum hekluðum dúllum og dúkum ef ég sé munstur í þeim sem ég held að ég geti notað. Þetta geymi ég svo á víð og dreif um heimilið og gríp í þegar þörf er á. Eins og í þetta verkefni.
  • Fyrir rúmu ári síðan hætti verslunin Erla á Snorrabraut rekstri og var því með rýmingarsölu. Ég keypti mér fullt fullt af útsaumsgarni í alls konar litum sem hefur svo legið ofan í skúffu síðan þá.
  • Ég á það til að týna upp steina sem mér þykja fallegir og geyma ef ég skyldi vilja hekla utan um þá. Því átti ég nokkra steina heima sem ég gat notað til verksins.

Þennan dag sem þessi sterka löngun til að skapa greip mig fékk ég börnin mín með mér í lið. Fyrst valdi hvert sér dúk með munstri sem þeim þótti flott, dúkinn notaði ég svo sem innblástur fyrir munstrið í þeirra stein. Næst völdu þau sér útsaumsgarn í lit sem þeim þótti fallegur. Ég gerði slíkt hið sama. Næstu kvöld á eftir sat ég svo og heklaði og rakti upp, heklaði og rakti upp, heklaði og rakti upp. Þar til ég var sátt með steininn að hverju sinni. Ég fór með eina hespu af DMC útsaumsgarni í hvern stein, hafði tvöfaldan þráð og notaði heklunál nr. 1,25 til verksins.

Minn steinn: Ég (34 ára) byrjaði á mínum stein og valdi mér því nokkuð einfalda dúllu til að fara eftir. Dúlluna keypti ég í Genbrug verslun í Köben 2016 (já þetta man ég).

Mikaels steinn: Mikael (16 ára) var í valáfanga í Tækniskólanum þar sem hann var að læra að hnýta og vildi að munstrið í steininum sínum væri eins og net. Ég er sérstaklega ánægð með steininn hans Mikaels því munstrið í miðjunni minnir mig á atóm og Mikael er alger vísindanörd. Dúkinn erfði ég frá Jóhönnu ömmu minni þegar hún lést 2015.

Móra steinn: Móri (5 ára) barðist hart fyrir því að fá þennan fjólubláa lit. Systir hans var fyrri til að grípa hann en rak svo augun í bleikt og skipti um skoðun. Fjólublár er í uppáhaldi hjá honum um þessar mundir, enda er það liturinn á uppáhalds Turtles kallinum hans. Dúkurinn er keyptur í Genbrug versluninni í Köben.

Maíu steinn: Maía (3,5 ára) er bleik út í gegn. Það kom mér því ekkert á óvart að hún skyldi velja bleikt garn og bleikan dúk. Hún á ekki langt að sækja það því ég er ansi hrifin af bleiku sjálf. Dúkurinn er keyptur í Genbrug verslun í Lundi 2014.

Áður en ég byrjaði að hekla þá var ég eitthvað að hugleiða það að láta steinana vera úti á tröppum til skrauts. En ég tími því alls ekki eftir að hafa klárað þá. Í dag eru þeir til skrauts inn í stofu hjá okkur og gleðja okkur fjölskylduna. Ég er nokkuð viss um að þessi steinar eigi eftir að fylgja mér lengi.

 

Takk fyrir innlitið á bloggið og þúsund þakkir fyrir lesturinn. Ég mæli hiklaust með því fyrir alla að hekla utan um steina. Ef þig langar að skella þér í eitt stykki “heklaðan stein” þá erum við með eina uppskrift hér á síðunni sem þú getur sótt þér og prufað.

Heklkveðjur
Elín