Ferli snjókornsins

Ég elska jólakort. Mér finnst mjög gaman að senda út kort. En meira þó finnst mér skemmtilegt að fá jólakort. Ég hef í mörg ár sent út jólakort, aðallega þá eftir að hann Mikael minn fæddist. En seinastliðin 3 ár hefur þetta farið í bölvað klúður hjá mér 2007 og 2008 keypti ég jólakort, skrifaði á þau og smellti inn mynd – en sendi þau þó aldrei af stað. Í fyrra ákvað ég svo að sleppa þessu bara alveg enda alger tíma- og peningasóun ef þau enda svo bara niðrí skúffu hjá mér.

Í ár langaði mig þó að senda út kort. En hann Mikael minn er orðinn svo stór og finnst eiginlega ekkert skemmtilegt að ég sé alltaf að taka myndir af honum og hvað þá að ég sé að senda þær um allan bæ. Allar myndirnar af honum á Facebook eru alveg nóg fyrir hans smekk. Hann er mun hlédrægari en móðir hans.

En samt langaði mig að hafa kortin persónulegri en svo að hafa bara kortið og undirskrift. Þá vaknaði sú hugmynd eftir samtal við vinkonu mína að föndra í kortin. Og þar sem ég var að hekla snjókorn handa sjálfri mér þá var það alger snilld að hekla snjókorn og senda út – hver veit kannski að þetta verði svo bara að árlegri hefð.

Ég fann svo æðislega konu á Ravelry sem býr til fáránlega flott snjókorn og allar uppskriftirnar hennar eru gefins á blogginu hennar. Ég valdi þetta því það er sæmilega auðvelt að hekla en er samt mjög flott.
Ég notaði DMC hekl garn og nál nr. 1,25
Þið finnið uppskriftina af því hér.

Snjókornið er ekki upp á marga fiskana áður en það er stífað. Búin að dýfa snjókorninu í sykurvatn og pinna það niður.
Því miður þá finnst mér þetta alveg herfilega leiðinlegt!
Fann blogg hjá konu þar sem hún er fullt af myndum sem björguðu mér alveg þegar kom að því að stífa snjókornin bein.
Getið fundið hana hér.

Ég keypti mér stóra korktöflu í Góða Hirðinum á 100 kall
og set smjörpappír undir snjókornið svo það festist ekki við korkinn eða pappírinn.

Snjókornið orðið stíft og fínt.

Því næst málaði ég snjókornin með glimmer-tau-málingu sem ég keypti í Föndurlist.

10 snjókorn orðin tilbúin.

Þá var bara að skrifa jólakortin og smella snjókornunum í umslögin.
Því miður þá var ég svo heppin að veikjast í desember – ekki bara einu sinni heldur tvisvar – svo ég náði ekki að klára öll snjókortin né jólakortin fyrir jól. Sumir verða bara svo heppnir að fá nýárskort frá mér.

Svo að lokum er ein mynd af snjókorni á jólatrénu mínu.
Snjókornin koma alveg awesome út þótt ég segi sjálf frá.

Skildu eftir svar