Það er eitthvað við þessar litlu flíkur á nýfæddu krílin, það er svo gaman að prjóna þau. Ekki af því að maður er svo snöggur heldur þau eru svo krúttleg. Yngsta barnabarnið mitt er 4ra ára en einhverja þörf fékk ég í byrjun ársins á því að prjóna nokkrar flíkur á lítið kríli.
Ég er svo heppin að geta svalað prjónaþörf minni og prjónað fyrir búðina ef enginn er í kringum mig að prjóna á það sem mig langar að gera. Ég var á leið í aðgerð á hné og vissi að ég þyrfti að vera heima nokkuð lengi svo ekki mátti vanta prjónaverkefni. Ég fékk hana Maríu lánaða til að vera módel fyrir mig á flíkur ætlaðar 3 mánaða aldri eða svo.
Fyrsta verkefnið var þessi fallegi kjóll.
Tilda kjolebody – úr bókinni Klompelompe Sommerbarn
Stærð: 0-1 mánaða
Garn: Drops BabyAlpaca Silk – litur nr 1760
Næsta peysa var búin að vera í kollinum á mér í um 2 ár en ég hafði aldrei komið því í verk að prjóna hana og skrifa niður uppskrift. En þar sem ég var föst heima var ekkert annað í stöðunni en að koma sér að verki.
Emilía, ungbarnapeysa og -húfa
Stærðir: (0-1) 3 (6) 9 (12) mánaða
Garn: Drops Baby Merino
– litir: púður nr 44 og ametyst nr 40
Fallega María (2,5 mán) sem ég fékk lánaða sem módel
Svo kom að því að Drops birti nýjar ungbarnauppskriftir og féll ég alveg fyrir húfunni í þessari uppskrift og bara varð að prjóna eitt stykki.
Gula settið – samsuða úr Drops uppskriftum héðan DROPS BABY / 29
Stærðir: 0 mánaða til 4 ára
Garn: Drops Baby Merino
– litir: sítrónupunch nr 45 og dökkgrár nr 20
Þessi guli litur er nýr hjá þeim og ákvað ég að prjóna peysu og buxur við húfuna. Úr varð þetta sett:
Uppskriftina af peysunni fékk ég á Garnstudio en skipti út kaðlinum og setti inn falskan kaðal eins og í húfunni.
María krútt komin í settið
Baby Merino garnið er yndislegt að prjóna úr og hentar mjög vel í ungbarnafatnað. Ég held einnig mikið uppá Drops Cotton Merino.
Það er mjög vinsælt að prjóna skriðbuxur á lítil börn (e. romper). Þessi uppskrift er ekki mjög grípandi á síðunni hjá Garnstudio en uppskriftin er auðveld og skemmtilegt að prjóna þessar skriðbuxur.
Petit Lutin – romper
Stærðir: 1/3 – 6/9 – 12/18 mánaða
Garn: Drops Cotton Merino
Verð að láta þessa mynd með. María blessunin var mynduð í buxunum öfugum 🙂 Að sjálfsögðu á smekkurinn að vera framan á barninu, en falleg er flíkin.
Svo fann ég þessa uppskrift fría á netinu, tilvalið að nota afganga í þessa. Aþena ömmugull sá minna parið hjá mér og bað mig um að prjóna á litlu systur sína vettlinga líka. Fjólublátt og hvítt þykir Aþenu svo fallegt saman og valdi þá liti handa litlu systur sinni.
Miniselbu eftir Tinu Hauglund
Stærðir: 3-6 (6-9 m) 9-12 mánaða
Garn: Drops Baby Merino
Svo komu nú gleðifréttir til mín um miðjan mars – mitt 6. barnabarn er á leiðinni – mikil gleði en foreldrarnir ætla ekki að fá að vita kynið. Svo ég, amman, get nú aldeilis farið að láta mig hlakka til og prjóna eins og vindurinn á væntanlegt ♥ ömmugull ♥
Strákur eða stelpa – kemur í ljós
Prjónakveðja,
Guðrún María