Mikael minn átti erindi í Nexus í dag og ég ákvað að skella mér í göngutúr með honum þangað. Mig vantaði nefninlega afmælisgjöf handa mömmu en hún er 51 árs í dag. Það eru ekki allir sem vita það en Nexus selur handavinnubækur. Og ekkert venjulegar handavinnubækur. Þeir eru með frábært úrval af skemmtilegum bókum sem sjást ekki í öðrum hannyrðabúðum.


Það sem kom mér samt mest á óvart er hvað bækurnar eru á góðu verði. Þessar tvær bækur eftir Edie Eckman eru á svo fáránlega flottu verði að ég bara verð að benda ykkur á þær. Ég á sjálf ferningabókina og nota hana enn reglulega. Allar uppskriftir eru í máli og myndum/táknum.

Svo er starfsfólkið í Nexus líka æðislegt. Afgreiðslumaðurinn í Nexus sagði mér að ef þeir ætluðu sér að vera alhliða nördaverslun þá yrðu þeir að sinna öllum nördum. Líka okkur handavinnunördunum.
***
Eins og ég sagði þá á mamma afmæli. Ég er voða hrifin af því að föndra afmælisgjafir handa fólki. Mér finnst það svo persónulegt og skemmtilegt. Best er þegar ég fæ börnin með mér í lið.
Þegar Móri og Aþena urðu 2ja ára fengu þau kórónur á leikskólanum. Þau halda mikið upp á kórónurnar og setja þær reglulega upp. Alltaf þegar kórónurnar eru uppi við segjast þau eiga afmæli og vilja að það sé sungið fyrir þau. Því má segja að fyrir þeim er ekkert afmæli nema það sé kóróna. Þess vegna fannst mér það snilldar hugmynd að fá þau til að föndra kórónu handa ömmu sinni.
Þekkjandi son minn og systurdóttur vissi ég að það yrði engin veisla nema þau fengju að hafa kórónur líka og því gerði ég litlar kórónur handa þeim í stíl við ömmu. Maía fékk líka eina litla kórónu. Það má ekki skilja útundan.

Ég endaði á að kaupa þessa flottu sokkabók handa mömmu og hún var heldur betur sátt með hana. Hún hafði einmitt fyrr um daginn verið að fletta henni og hugsað að hún yrði að eignast hana.
Frændsystkinunum fannst þau æðislega flott og voru heldur betur glöð með kórónurnar sínar. Ég þykist viss um að amman hafi verið frekar glöð líka.
Elín c”,)