Að stífa hekl…og líka prjón

Ég hef verið að gera nokkrar tilraunir með það að stífa hekl og ákvað að taka saman niðurstöðurnar hérna. Ég hef ekki prufað allt sem er í boði svo ég mun uppfæra þessa blogfærslu þegar ég hef prufað e-ð nýtt.

 • Sykurvatn:
  Ég nota lang oftast sykurvatn, blandað til helminga. Sykurvatnið er tilvalið þegar á að stífa snjókorn og bjöllur og allt annað sem á að verða alveg glerhart. Ég lendi þó oft í vandræðum því sykurvatnið virðist stundum hafa sinn eigin vilja, því jafnvel þótt ég sé að nota sömu blönduna af sykurvatni þá stífast stykkin ekki eins, veit ekki alveg hvað málið með það er. Einn ókosturinn við sykurvatnið er að það vill koma hvít slikja yfir stykkin ef verið er að nota litað garn. Það hins vegar gerist ekki alltaf heldur.
 • Flórsykurvatn:
  Flórsykurvatnið er blandað eins og sykurvatnið, til helminga. Þegar ég notaði flórsykur þá fannst mér eins og stykkin mín væru lengur að þorna en þegarf ég notaði sykurvatn. Stykkin verða vel stíf en þau verða ekki alveg glerhörð. Það jákvæða við flórsykurinn er að hann skilur ekki eftir sig svona slikju á litaða garninu.
 • Kartöflumjöl:
  Ég fann uppskrift að því hvernig ætti að blanda stífelsi úr kartöflumjöli á blogginu hjá Katý. Sú blanda er 1 msk kartöflumjöl og 1 dl kalt vatn hrist saman, 1/2 l af sjóðandi vatni blandað við.
  Snjókornið sem ég stífaði með þessari blöndu varð ekki glerhart en það hélt löguninni. Égg tel að þessi blanda sé mjög góð til þess að stífa dúka. Á eftir að prufa það.
 • Undanrenna:
  Ég prufaði að stífa eitt snjókorn með óblandaðri undanrennu. Það sjókorn varð ekki glerhart en hélt þó lögun sinni. Undanrennan væri því einnig tilvalin til þess að stífa dúka með. Spurningin er þó hvort það sé ekki mikil sóun í því að nota undanrennu því mar notar ekki mikið af henni til að stífa einn dúk og restin fer bara í ruslið – ef mar drekkur hana ekki það er að segja.
 • Stífelsi í spreyformi:
  Ég fór í Föndurlist og keypti svona stífelsi í spreybrúsa. Prufaði að stífa bjöllu með því og það gekk alls ekki upp. Eins og áður þá hélt stykkið löguninni en varð alls ekki hörð. Það væri svo sem hægt að hafa bjöllurnar svona mjúkar í sér en ég vill frekar hafa þær harðar. Þetta er þó prýðilegt til þess að strekkja ferninga sem eru ójafnir og ætti að henta vel þegar verið er að stífa dúka.
Ef þið hafið ábendingar um fleiri aðferðir til þess að stífa þá endilega látið mig vita.

Skildu eftir svar