Að prjóna…

…er meir en að segja það. Ekki afþví að það er erfitt heldur því það er svo margt í boði.

Ég þjáist af því sem ég kalla mótþróa. Stundum er það kostur en stundum galli. Eins og margir sem lesa bloggið vita þá er ég að læra að verða textílkennari upp í HÍ. Í fyrra var ég í áfanga þar sem við vorum að prjóna og þar sagði kennarinn að ég yrði að læra að prjóna upp á íslenska mátann. Síðan þá hef ég verið að æfa mig og það gengur bara sæmilega.

Ég lærði að prjóna 9 ára hjá færeyskri ömmusystur minni og held því á garninu í hægri hendi eins og Bretar og Ameríkanar. Alltaf hefur verið hlegið að því hvernig ég prjóna og mér sagt að ég prjóni vitlaust. Mér fannst það voða leiðinlegt að heyra en hugsaði hey þetta virkar svo mér er sama.

Eftir að ég fór að æfa mig í að prjóna á íslenska mátann hef ég komist að því að mér finnst vissulega auðveldara að halda á garninu í vinstri hendi því mar hreyfir hendina minna. Ég er orðin nokkuð lunkin í því að prjóna slétt en það er alveg hreint glatað að prjóna brugðið. Þetta er svo svakalega flókið miðað við það sem ég er vön.

Og þar kemur mótþróinn minn inn.

Þegar eitthver segir við mig “Svona er þetta bara” þá verð ég bara að afsanna það. Því hef ég verið að skoða á netinu mismunandi prjóna aðferðir og fundið margar skemmtilegar. Sem mig langar að deila með ykkur.

Tvær algengustu prjónaaðferðirnar eru:

  • Ensk eða Amerísk (English, American) – bandið er í hægri hendi.
  • Evrópsk eða Meginlands (European, Continental) – bandið er í vinstri hendi.

Ég las á Wikipedia að vinsældir Ensku aðferðarinnar hafi aukist í kringum og eftir seinni heimsstyrjöldina því Evrópska aðferðin átti rætur sínar að rekja til Þýskalands. Það var ekki fyrr en upp úr 1980 sem Evrópska aðferðin fór að ná vinsældum aftur.

Það er sagt að mar sé fljótari að prjóna með Evrópsku aðferðinni og ég hugsa að það geti verið rétt fyrir langflesta. En hún Hazel Tindall prjónar með Ensku aðferðinni og er andskoti fljót. Ég hugsa að æfingin skipti mestu máli.

[youtube=http://youtu.be/WjEh7acrr5o]

Á YouTube flakkinu mínu fann ég nokkrar mismunandi aðferðir við að gera brugðið. Sumar virtust jafnvel flóknari en þessi sem ég er að reyna að læra. En ég ætla að prufa nokkrar og sjá hvað mér finnst. Eitt myndband sem ég fann kallast “Brugðið á Norskan máta” og sýnir hvernig hægt er að prjóna brugðið án þess að þurfa að færa bandið fram fyrir prjónana. Gæti verið mjög gagnlegt þegar verið er að prjóna stroff.

[youtube=http://youtu.be/hDCWA8yB8x4]

Ég fann líka aðra aðferð sem mér finnst nokkuð merkileg. Á YouTube er þetta kallað Portúgalska aðferðin. Þarna eru þær með bandið aftur fyrir hálsinn eða í nælu með krók sem þær festa í barminn á sér. Mjög skemmtilegt.

[youtube=http://youtu.be/uZ31pk05CBE]

Það skemmtilegasta sem ég fann var án efa ein aðferð sem ég fann en veit ekki hvað kallast, myndböndin hétu Ástralskt prjón, Skoskt prjón, prjón frá Perú og Írskt sveita prjón. Þetta er að ég tel eitthvað afbrigði ensku aðferðarinnar. Ég reyndi að leika þetta eftir en tókst það ekki vel. Finnst þetta alveg hreint magnað.

[youtube=http://youtu.be/8o00ux6zPiE]

Ég get sagt ykkur það að ég er allavegana að skemmta mér konunglega við að læra meira um prjón. Þegar ég er búin að mastera slétt og brugðið þá fer ég að æfa mig í að prjóna með tveimur eða fleiri litum. Mig skortir soldið æfingu á þeim bænum. Ég er líka búin að ákveða að ég ætla sko ekki að vera sá kennari sem segir “Svona er þetta bara” heldur ætla ég að kunni fleiri en eina aðferð svo ég geti hjálpað sem flestum að læra að prjóna. Og hana nú.

Þið sem nenntuð að lesa þessa löngu færslu: Ég vona að þið hafið séð eitthvað sem ykkur fannst áhugavert líka.

 

Prjónakveðjur
Elín c”,)

 

Skildu eftir svar