Ég heklaði teppi í október. Svona eiginlega bara alveg óvart. Og var frekar fljót að því.
Lífið atvikaðist þannig að ég fór af stað komin tæpar 34 vikur. Ég var því lögð inn á spítala og lá inni í 3 daga til þess að hægt væri að stoppa fæðinguna – og það tókst. Áður en ég skottaðist upp á spítala henti ég hekli í töskuna eins og ég geri svo oft. Heklið sem fór í töskuna voru dúllur sem ég var að hekla fyrir byrjendanámskeið sem var á dagskrá hjá Handverkskúnst.
Ég ætlaði bara að hekla nokkrar fyrir námskeiðið.
En eftir 3 daga rúmlegu og ekkert nema tíma til að hekla
þá hafði ég heklað 60 dúllur þegar kom að því að fara heim.
(Tek það fram að maðurinn minn og mamma komu með meira garn upp á spítala handa mér,
ég var ekki með svona svakalegt magn af garni í töskunni).
Eftir að ég kom heim átti ég að vera rúmliggjandi og hélt því áfram að hekla.
Á næstu dögum heklaði ég 60 dúlllur til viðbótar.
Á meðan ég var enn rúmliggjandi gekk ég frá öllum endum. Það tók ekki nema 1 dag.
Dúllurnar voru gerðar úr Kambgarni sem ég átti til heima og réð það litavali.
Búin að raða dúllunum upp í skipulagt óskipulag.
Móri (með risa glóðarauga) sat með mömmu
og passaði upp á að þetta færi ekki í klúður.
Aldrei þessu vant þá rústaði hann ekki öllu fyrir mér.
*****
Þegar kom að því að hekla dúllurnar saman mátti ég fara að hreyfa mig aðeins svo það tók mig örlítið lengri tíma en að hekla dúllurnar. Ekki mikið þó. Var í viku að hekla teppið saman og hekla kant á teppið.
Ég heklaði teppið saman með svokallaðri join-as-you-go aðferð.
Eða heklað-saman-jafn-óðum eins og það myndi beinþýðast.
Þá hekla ég það saman um leið og ég hekla síðustu umferðina.
Ég varð að kaupa mér 4 dokkur af hvítu Kambgarni til þess að tengja dúllurnar saman.
En annars átti ég allt annað garn til heima.
Er barasta nokkuð sátt með teppið mitt.
Sem ég er að hugsa um að kalla Gissunni
því maðurinn minn vill ekki nefna dóttur okkar því nafni.
Ég byrjaði að hekla þennan kant um teppið.
En viti menn. Garnið kláraðist svo ég gat ekki klárað.
Er það ekki alveg týpískt svona fyrir afgangateppi?
Ég var í vandræðum með að láta einn lit endast heila umferð.
Það gerist oft þegar verið er að nota afganga.
Mér datt í hug að hekla með einum lit hverja hlið á teppinu – og ég er að fíla það í botn.
Ég er hins vegar ekki að fíla bláa kantinn nógu vel
og planið er að skipta honum út fyrir hvítt bara.
Þess má til gamans geta að það tók mig um mánuð að mynda teppið sem ég var svona svakalega fljót að hekla.
Og Móri var ekki alveg jafn góður þegar ég var að reyna að mynda teppið heldur rústaði hann uppstillingunum mínum nokkrum sinnum. Enda átti ég að vera að horfa á hann hekla en ekki taka myndir af eitthverju hekli.